19. júlí 2004

Et, drekk og ver glaðr!

Ójá, það var sko kíkt út á lífið á laugardaginn!
Fyrsti laugardagurinn í næstum 2 mánuði sem ég var í fríi frá barnaheimilinu og ekki annað hægt en að gera sér glaðan dag.
 
Við stúlkurnar grilluðum dýrindis kjúkling og húsmæðraskólanámið fékk loksins að njóta sín við gerð stórkostlegrar sósu sem höfð var til meðlætis matnum ásamt salati, speltbrauði og fleira góðmeti. Var þessu öllu rennt ljúflega niður afar seint um kvöldið þar sem grillhæfileikar okkar fjögurra stúlknanna reyndust ekki sérlega mikið að hrópa húrra fyrir.
 
Um það bil 3 klukkutímar fóru í að lifa eftir máltækinu "Et, drekk og ver glaðr" hér heima í híbýli syndanna áður en átið var tekið úr jöfnunni og einbeitingin einskorðaðist við hina tvo hluta hennar. Ekki minnkaði gleðin við það og þegar fljótandi veigar hallarinnar voru uppurnar, var stefnan tekin á barnaheimilið þar sem beið okkar vodkaflaska og meððí.
 
Til að gera langa sögu stutta, tókst okkur stöllunum (hér eru tvær þeirra og hér er sú þriðja) í sameiningu að uppfylla inntökuskilyrðin í Ólympíuliðið í drykkjuskap þetta kvöld og ef mér skjátlast ekki þá hefur dótturfélag Glúndrasystra hérmeð verið stofnað með stórglæstri frammistöðu okkar í útibúinu í Danaveldi:
 
Það var til dæmis dansað uppá hátölurum og setið í kjöltu manna sem ekki er ráðlegt að sitja í kjöltu hjá. Einnig var vúrderaður neðanbeltis-rakstur á fleiri en einum og fleiri en tveimur sjálfboðaliðum og sms flugu hægri vinstri við misjafnar undirtektir viðtakenda meiri part kvölds og nætur. Að auki komum við í veg fyrir slagsmál með einstökum persónutöfrum okkar, opinberuðum leyndarmál í agalegum trúbba og ef mig minnir rétt flaug setningin "Þú átt ekki að vera með svona stelpu eins og henni. Þú átt að vera með svona stelpu eins og mér!" út úr einhverri okkar þegar líða tók undir morgun.
 
Geri aðrir betur!


Engin ummæli: