24. apríl 2004

Á heilanum....

There must be fifty ways to leave your lover.....la la la la

Já.

22. apríl 2004

Það er draumur að vera með dáta....

Eruð þið ekki að grínast í mér??
Eru franskir sjóliðar í Reykjavík??
Spássérandi um bæinn í matrósafötum lúkkandi gordjöss??

Mælist hér með til þess að stofnaður verði neyðarsjóður til að safna fyrir flugfari svo ég komist heim með það sama.....ég fæ svo bara far með þeim til meginlandsins aftur.

Men in júníform: Jömmmmííí....

20. apríl 2004

Öpp-deit

Hér kom ákaflega hugrökk sál í heimsókn í gær og frelsaði mig undan morðóðu augnaráði óargadýrsins sem ég hélt föngnu í stofunni.

Var villidýr þetta aflífað á snöggan og jafnframt afar miskunnsaman hátt og jarðlegum leifum þess hent út um gluggann til að ættingjar og aðrir nákomnir aðstandendur gætu jarðað og syrgt og hætt að lifa í óvissu um afdrif þess.

Tel ég þetta mikið góðverk, þó að eftir á að hyggja hefði líklega verið ráðlegra að losa sig við líkið örlítið lengra frá heimili mínu svo ekki væri jafn auðvelt að bendla mig við verknaðinn. Get þó huggað mig við það að ég er hinu versta viðbúin og mun verja heimili mitt innrás áttfætlanna og hvers kyns hefndaraðgerðum sem þær gætu fundið uppá, þó ekki með kjafti og klóm, heldur hinu mjög svo viðamikla vopnabúri mínu, innihaldandi meðal annars flugnaspaða, sellófan, límband og Trinol Bio 810 Insektmiddel af dýrustu sort. Hef ég einnig komið mér upp lager af glösum til að halda skepnunum í skefjum á milli heimsókna böðulsins.

Held þeim sé hollast að halda sig fjarri!!

19. apríl 2004

Hetjan ég!

Ég fór í göngutúr áðan um götur Viborgar í hlýju rigningunni sem sannfærir mig alltaf um að þó ég eigi heima hérna núna, þá er ég samt í útlöndum.
Þetta var hinn notalegasti labbitúr og mikil heilsubótarganga. Ekki síst fyrir andlegu heilsuna en henni hefur víst stöðugt hrakað síðustu daga.
Ég labbaði í svona rúman klukkutíma um bæinn þveran og endilangan (næstum) og eini votturinn um að þetta pleis væri ekki eyðibær var einn, já aðeins einn, róni á ferli og 2 flutningabílar að keyra í gegnum bæinn. Glætan að það væri svona dautt á t.d. Akureyri á sama tíma og þó búa 25 þúsund fleiri einstaklingar hér en þar.

Kem svo heim en er ekki fyrr sest í sófann minn þegar ég heyri fótatak. Eftir fyrrnefnda talningu á fólki á ferli á þessum tíma sólarhringsins finnst mér þetta vægast sagt undarlegt og sperri bæði eyrun og mjúta sjónvarpið.
Fótatakið kemur ekki að utan, ég útiloka það strax. Eftir nánari hlustun kemst ég að þeirri niðurstöðu að ekki komi það heldur innan úr eldhúsi, né svefnherberginu mínu. Hmmm....
Verð fyrir þónokkru áfalli þegar ég átta mig á því að fótatakið faktískt berst frá stofugólfinu mínu! Stofugólf þetta er nóta bene beint fyrir framan nefið á mér þar sem ég sit í áðurnefndri IKEA mublu og reyni að hafa það huggulegt! Rísa því allsvakalega á mér öll þau hár sem enn eru á kroppnum eftir nýlega plokkunar og vax-sessjón, þar sem ég get með engu móti greint manneskju á stofugólfinu og er ég þó með linsurnar í augunum á þessum tímapunkti!
Á núll komma einni hverfa huggulegheitin sem dögg fyrir sólu og með svitann perlandi á enninu halla ég mér fram til að sjá handan við stofuborðið ískyggilegan grun minn staðfestan og eina verstu martröð mína verða að veruleika.

Horfist ég nú í augu við stófelldlega ofvaxna og óvinveitta kónguló sem aldeilis óvelkomin valsar um stofugólfið og ógnar lífi mínu með návist sinni.
Svört og feit og ljót og svo stór að ég undraðist ekki að fótatakið skyldi hafa yfirgnæft evrópsku útsendinguna af MTV nokkrum andartökum áður en endurómar nú án undirspils um alla stofuna mína.

Nú eru góð ráð dýr.....á því harðaspani sem óargadýrið ferðaðist yfir gólfið varð mér það ljóst að skjót handtök þyrfti til að handsama* kvikindið áður en það næði að týnast og valda mér ómældu hugarangri og tilfinnanlegu andlegu tjóni um óákveðinn tíma.
*Ég nota orðið "handsama" afar frjálslega hér, þar sem ekkert er mér fjarstæðara en sú tilhugsun að snerta villidýr af þessarri sort með berum höndum og jafnvel þó vel bólstraðir gúmmíhanskar af þykkustu gerð væru í boði, léti ég mér ekki detta til hugar að gera tilraun til að fanga skepnuna með þeim hætti.

Skimaði ég með ógnarhraða eftir tiltæku vopni, passlegu til orrustu líkt og þeirrar sem ég nú stóð frammi fyrir og ljóst þá snilldarhugmynd niður í kollinn á mér. Með áður óþekktum hraða og snerpu greip ég djúsglasið sem stóð hálf fullt á stofuborðinu fyrir framan mig, skellti innihaldi þess í mig á örskotstundu og réðst til atlögu við óskapnaðinn.
Eftir stuttan en æsispennandi eltingaleik þvert yfir allt að 4 fjalir á parketinu náði ég að króa kvikindið af og hafði sigur þegar ég skellti glasinu af öryggi yfir loðna áttfætluna og hindraði þar með frekari könnunarleiðangur hennar um híbýli mín og gerði að engu áætlun hennar um að éta mig eða með öðrum hætti murka úr mér líftóruna. Hah!!

Hræðslan var þó ekki alveg horfin úr litla hjartanu mínu fyrr en ég var vandlega búin að hagræða tveimur orðabókum (dansk-íslenskri og spænsk-enskri) ofan á glasinu og þannig sannfæra mig um að dýrið gæti með engu móti lyft glasinu í einhverju adrenalínfrensíi til að berjast fyrir lífi sínu og þannig komist undan.

Nú held ég semsagt stórhættulegu villidýri föngnu í stofunni minni þar til einhver hugrökk sál kemur í heimsókn til mín og kemur skepnunni fyrir kattarnef fyrir mig. Já, því miður eru önnur úrræði ekki í boði því hefndarþorsti þessarrar tegundar er slíkur að sé henni sleppt utandyra í fjarlægð sem að öllum líkindum gæti álitist hættulaus er engin ábyrgð fyrir því að hún fjölgi sér ekki bara og mæti margefld með hersveitir af ættingjum til baka til að ná sér niður á mér. Ekki gaman að þeirri tilhugsun.


Niðurstöður kvöldsins eru því þessar:

1. Vorið er líklega komið og dagar þess að tipla áhyggjulaus og berfætt um íbúðina mína og njóta bleika litarins á tá-naglalakkinu mínu við parketið eru liðnir að sinni. Mun ég héðan í frá ekki fara í bælið nema vera búin að stilla inniskónum mínum vandlega fyrir framan rúmið þannig að ég geti smeygt mér í þá sem fyrsta verk allra morgna fram í október.
Nóvember kannski, svona til að vera "on the safe side". Já.

2. Ég þarf líklega að kaupa fleiri glös. Það er nebblega alls ekki ólíklegt að gerðir verði út björgunarleiðangrar.....

18. apríl 2004

Biluð....fyrir allan peninginn!

Ég er ekkert búin að sofa í næstum 3 sólarhringa
Ég er ekki að meika heiminn minn eins og hann er í dag
Mig langar að ferðast meira og læra fleiri tungumál
Ég held ég sé ástfangin
...og það er alveg að rugla í hausnum á mér
Ég get aldrei klárað neitt sem ég byrja á
Ég eyði flestum peningum þegar ég á minnst af þeim
Ég geri mistök...fullt af þeim
Mistökin sem ég geri hafa yfirleitt mjög langvarandi afleiðingar
Ég er sjúklega lítil í mér
Ég hef ekki nokkurn einasta vott af aga
Ég hlakka til sumarsins
Ég kvíði líka fyrir því
Ég lifi allt of mikið í fortíðinni
Ég er óstjórnlega ofdekruð og vil bara fá það sem ég vil og geta gert það sem ég vil
Ég vil ekki þurfa að hafa fyrir neinu
Stærsti fjársjóðurinn minn eru vinir mínir
Ég sakna þeirra allra sjúklega mikið
Mig langar til að koma mér í form
...en, sörpræs sörpræs þá hef ég engan aga í það
Ég get enganvegin höndlað karlmenn nema þeir séu plebbar
Mér finnst hafragrautur herramanns matur
Ég gæti eytt aleigunni í skó....og nærföt
Ég díla við hlutina með því að detta í það
...það er ekki að virka
Ég er ógeðslega hrædd við kóngulær
Mér finnst gaman að dansa
Ég reyki of mikið og ég held mig sé pínulítið farið að langa til að hætta því
...en ef einhver minnist á það við mig verð ég alveg fúl og held því áfram af þrjóskunni einni saman
Ég vildi að ég hefði farið í bekkjarkerfi í menntó
Hefði samt aldrei viljað missa af því að kynnast fólkinu sem ég kynnstist í MH
Mig vantar vinnu í sumar....anyone?
Mig langar að búa lengur í Danmörku
Mig langar líka allt of mikið til að koma heim og verða fullorðin
Ég er sjaldnast samkvæm sjálfri mér

Ég er bláedrú

12. apríl 2004

Félagatal

Jæja, þá var loksins gert eitthvað í þessu. Kominn tími til...tókum þetta með trompi og héldum fundi í mörgum félögum í einu um síðustu helgi. Ekki slæmur árangur það! Félögin semsagt flestöll komin á fullt skrið aftur.
Þeink god!

Sá ég mér því ekki annað fært en að koma loksins á "prent" stefnuskrám og hlutverki þessarra félaga, bæði til hliðsjónar fyrir áhugamenn um félögin jafnt sem félagskonur sjálfar, því reynslan hefur sýnt að það hefur reynst nokkrum erfiðleikum háð að henda reiður á þeim öllum.

GrátLiljurnar:
Fyrsta félagið sem stofnað var og á það rætur sínar að rekja aftur til Benedorm, árið 2000 og heldur því upp á 5 ára starfsafmæli sitt á næsta ári. (Spurning um að halda upp á það með fundi í félaginu? hmm....)
Starfsemin felst í því að "reglulega" ferðast til fjarlægra sólarstranda og njóta veðurblíðunnar af svölum gististaðarins alla ferðina og grenja úr sér augun og armæðast með miklum tilþrifum yfir....jebbs, förum ekki nánar útí það! ;)
......Súkkulaði og hvítvín hvoru tveggja ómissandi til að halda dampi í trúbbanum.
Því miður hafa efni og aðstæður ekki leyft mikla starfsemi þessa félags undanfarin misseri en von er til þess að það fari nú allt að breytast til betri vegar þegar við löndum lottóvinningnum.

Einkennisorð:
-...og svo dó afi minn!!! *grenj*

Rugl.is:
Þetta félag hefur þann eiginleika að félagskonur geta haldið starfseminni uppi sitt í hvoru lagi sem gerir það að verkum að þrátt fyrir smá hlé á heimavígstöðvunum kom Diskódísin sterk inn um síðustu helgi og er félagið núna í fullri starfsemi bæði heima, sem og á meginlandinu. Ójá!
Umræður og spjallþræðir myndast svo reglulega milli félagskvenna á veraldarvefnum svo hægt sé að skrá og hafa yfirsýn yfir starfsemina. Stefnir sú samantekt óðara í metsölubók ef af því verður að ráðast í útgáfu hennar.

Sálufélagið:
Telur af augljósum ástæðum aðeins tvo meðlimi og er algerlega ómissandi tengiliður milli allra hinna félaganna og myndar grunn fyrir því að ástæða hefur þótt til stofnunar þeirra.

Faðmlagsfélagið:
Því miður tímabundið óvirkt nema í törnum vegna þeirra óviðráðanlegu orsaka að allnokkrar lengdargráður á milli staðsetningar félagskvenna gera reglulega starfsemi nokkrum erfiðleikum háða. Og það jafnvel þó við virkilega teygjum okkur.
Mjög mikilvægt félag engu að síður!

Systur í syndinni:
Þetta dótturfélag Rugl.is hefur náð ótvíræðum árangri á þeim tíma sem það hefur verið starfandi. Hafa félagskonur þess það að leiðarljósi að ná settum markmiðum í hvert það sinn sem haldinn er félagsfundur en þó þeir fundir séu oftar en ekki settir á svæði 101 í borg óttans þá lýkur þeim yfirleitt á ákaflega mismunandi stöðum víðsvegar um Stór-Reykjavíkursvæðið.
Sjálfstæð starfsemi systranna teygir svo einnig anga sína og áhrif reglulega til hinna ýmsu lands- og heimshorna og heyrst hefur að næst á stefnuskránni sé að leggja Bandaríkin undir sig. *hóst* ;)
Svei mér þá ef við stefnum ekki bara á heimsyfirráð....

Einkennisorð:
Systir 1: Heyrðu, sorrí að ég skuli hafa stungið þig af þarna um helgina.
Systir 2: Ó?...ég sem hélt að ég hefði stungið þig af....Snilldin við þetta alltsaman er svo náttúrulega sú að hvert og eitt af þessum félögum telur aðeins tvo meðlimi.
Sömu tvo.

9. apríl 2004

ARG!

og sjittjá, síminn minn er horfinn!
Fína glæsilega 6110 talstöðin mín er týnd og tröllum gefin.

Sjálfs símtækisins verður að vísu ekkert sérstaklega sárt saknað þar sem annað slíkt er væntanlegt til mín von bráðar, en öðru máli gegnir víst um öll símanúmerin sem það innihélt.

Nú veit ég semsagt ekki númerin hjá neinum vinum, kunningjum, félögum, fjölskyldu né öðrum sem falla kannski ekki í neinn þessara flokka eða tilheyra fleiri en einum þeirra.
Þetta er augljóslega ófremdarástand sem ég er ekki sérlega sátt við.

Til að ráða bót á þessu væri það því mjög vel þegið að ef þeir/þær/þau sem lesa þetta og hafa áhuga á því að ég hafi númerið þeirra eða halda að ég gæti haft áhuga á að hafa númerið þeirra myndu senda mér eins og eina línu með tölvupósti og hjálpa mér við að endurnýja gagnabankann. :)

Takk :)

7. apríl 2004

Back in Baunaland...

Jæja, komin og farin bara.... á nótæm. Vá hvað þetta var fljótt að líða en ætli það þýði ekki líka að maður hafi skemmt sér vel...held það bara.

Fyrsta vikan fór náttlega í að leika túristaleik með 15 kellingum og var það ágætt bara. Gullfoss og Geysir og Skálholt og Bláa lónið og allir handavinnutengdir áfangastaðir á suðurlandsundirlendinu kovveraðir á nokkrum dögum. Svona á að gera þetta sko!

Þegar kellurnar voru farnar var svo ekki annað í myndinni en að skvera sér í hælana og partýgírinn og láta til sín taka í næturlífinu. Var það svo. Tókst að hitta alveg ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki þessi tvö kvöld og sjís, hvað var gaman.

I love the nightlife.....I´ve got to boogie....

Á föstudagskvöldið var gerður fasjíonatelí leit entrans í afmælisboð Logans og vodkahlaupinu gerð ágæt skil, að ógleymdu rommi í fresca sem er bara að ég held, einn ógeðslegasti drykkur ever! Nema ef vera kynni apótekaralakkrísinn...eða já.
Partýrestarnar stauluðust svo á Ölstofuna í rigningunni og þar var nokkuð bragðbetri veigum skolað niður með Bróður bogamanni sem ég hef ekki spjallað við í hundrað ár...eða næstum. Mjög næs!

Á laugardagskvöldinu þakkaði ég svo gvuði fyrir að hafa sofið meirihlutann af deginum, því eins og kom á daginn var tjúttið tekið með trukki.
Hófst kvöldið með kvenfélagsfundi í Kópavogi en þaðan var haldið á Ölstofuna til að safna liði. Þar fékk ég diskódísina í lið með mér og þá var víst ekki aftur snúið. Eins og okkar er von og vísa þegar við komum saman var haldin innreið í miðborgina með þvílíkum glæsibrag að annað eins hefur vart sést í manna minnum....já, eða síðan síðast þegar við fórum saman á drekk allavega ;)
Og skandalíserað eftir því, að sjálfsögðu. Komumst að því að bakgarðar og karlaklósett eru tilvaldir staðir til þess já. Og Ölstofan. Og Austurvöllur. Og...og...

Sunnudagurinn og mánudagsmorguninn fóru svo í að varpa sprengjum og flúði ég landið seinnipartinn á mánudeginum.