19. apríl 2004

Hetjan ég!

Ég fór í göngutúr áðan um götur Viborgar í hlýju rigningunni sem sannfærir mig alltaf um að þó ég eigi heima hérna núna, þá er ég samt í útlöndum.
Þetta var hinn notalegasti labbitúr og mikil heilsubótarganga. Ekki síst fyrir andlegu heilsuna en henni hefur víst stöðugt hrakað síðustu daga.
Ég labbaði í svona rúman klukkutíma um bæinn þveran og endilangan (næstum) og eini votturinn um að þetta pleis væri ekki eyðibær var einn, já aðeins einn, róni á ferli og 2 flutningabílar að keyra í gegnum bæinn. Glætan að það væri svona dautt á t.d. Akureyri á sama tíma og þó búa 25 þúsund fleiri einstaklingar hér en þar.

Kem svo heim en er ekki fyrr sest í sófann minn þegar ég heyri fótatak. Eftir fyrrnefnda talningu á fólki á ferli á þessum tíma sólarhringsins finnst mér þetta vægast sagt undarlegt og sperri bæði eyrun og mjúta sjónvarpið.
Fótatakið kemur ekki að utan, ég útiloka það strax. Eftir nánari hlustun kemst ég að þeirri niðurstöðu að ekki komi það heldur innan úr eldhúsi, né svefnherberginu mínu. Hmmm....
Verð fyrir þónokkru áfalli þegar ég átta mig á því að fótatakið faktískt berst frá stofugólfinu mínu! Stofugólf þetta er nóta bene beint fyrir framan nefið á mér þar sem ég sit í áðurnefndri IKEA mublu og reyni að hafa það huggulegt! Rísa því allsvakalega á mér öll þau hár sem enn eru á kroppnum eftir nýlega plokkunar og vax-sessjón, þar sem ég get með engu móti greint manneskju á stofugólfinu og er ég þó með linsurnar í augunum á þessum tímapunkti!
Á núll komma einni hverfa huggulegheitin sem dögg fyrir sólu og með svitann perlandi á enninu halla ég mér fram til að sjá handan við stofuborðið ískyggilegan grun minn staðfestan og eina verstu martröð mína verða að veruleika.

Horfist ég nú í augu við stófelldlega ofvaxna og óvinveitta kónguló sem aldeilis óvelkomin valsar um stofugólfið og ógnar lífi mínu með návist sinni.
Svört og feit og ljót og svo stór að ég undraðist ekki að fótatakið skyldi hafa yfirgnæft evrópsku útsendinguna af MTV nokkrum andartökum áður en endurómar nú án undirspils um alla stofuna mína.

Nú eru góð ráð dýr.....á því harðaspani sem óargadýrið ferðaðist yfir gólfið varð mér það ljóst að skjót handtök þyrfti til að handsama* kvikindið áður en það næði að týnast og valda mér ómældu hugarangri og tilfinnanlegu andlegu tjóni um óákveðinn tíma.
*Ég nota orðið "handsama" afar frjálslega hér, þar sem ekkert er mér fjarstæðara en sú tilhugsun að snerta villidýr af þessarri sort með berum höndum og jafnvel þó vel bólstraðir gúmmíhanskar af þykkustu gerð væru í boði, léti ég mér ekki detta til hugar að gera tilraun til að fanga skepnuna með þeim hætti.

Skimaði ég með ógnarhraða eftir tiltæku vopni, passlegu til orrustu líkt og þeirrar sem ég nú stóð frammi fyrir og ljóst þá snilldarhugmynd niður í kollinn á mér. Með áður óþekktum hraða og snerpu greip ég djúsglasið sem stóð hálf fullt á stofuborðinu fyrir framan mig, skellti innihaldi þess í mig á örskotstundu og réðst til atlögu við óskapnaðinn.
Eftir stuttan en æsispennandi eltingaleik þvert yfir allt að 4 fjalir á parketinu náði ég að króa kvikindið af og hafði sigur þegar ég skellti glasinu af öryggi yfir loðna áttfætluna og hindraði þar með frekari könnunarleiðangur hennar um híbýli mín og gerði að engu áætlun hennar um að éta mig eða með öðrum hætti murka úr mér líftóruna. Hah!!

Hræðslan var þó ekki alveg horfin úr litla hjartanu mínu fyrr en ég var vandlega búin að hagræða tveimur orðabókum (dansk-íslenskri og spænsk-enskri) ofan á glasinu og þannig sannfæra mig um að dýrið gæti með engu móti lyft glasinu í einhverju adrenalínfrensíi til að berjast fyrir lífi sínu og þannig komist undan.

Nú held ég semsagt stórhættulegu villidýri föngnu í stofunni minni þar til einhver hugrökk sál kemur í heimsókn til mín og kemur skepnunni fyrir kattarnef fyrir mig. Já, því miður eru önnur úrræði ekki í boði því hefndarþorsti þessarrar tegundar er slíkur að sé henni sleppt utandyra í fjarlægð sem að öllum líkindum gæti álitist hættulaus er engin ábyrgð fyrir því að hún fjölgi sér ekki bara og mæti margefld með hersveitir af ættingjum til baka til að ná sér niður á mér. Ekki gaman að þeirri tilhugsun.


Niðurstöður kvöldsins eru því þessar:

1. Vorið er líklega komið og dagar þess að tipla áhyggjulaus og berfætt um íbúðina mína og njóta bleika litarins á tá-naglalakkinu mínu við parketið eru liðnir að sinni. Mun ég héðan í frá ekki fara í bælið nema vera búin að stilla inniskónum mínum vandlega fyrir framan rúmið þannig að ég geti smeygt mér í þá sem fyrsta verk allra morgna fram í október.
Nóvember kannski, svona til að vera "on the safe side". Já.

2. Ég þarf líklega að kaupa fleiri glös. Það er nebblega alls ekki ólíklegt að gerðir verði út björgunarleiðangrar.....

Engin ummæli: