19. nóvember 2003

Status report frá Höfuðgötunni...

Jæja, þá er ég senst komin aftur í netsamband eftir allt of langa fjarveru! Eins og glöggir hafa tekið eftir hef ég hvorki verið á msn né bloggað síðan á laugardaginn í síðustu viku því einmitt þann dag tók ástkæri harði diskurinn á elskulegu tölvunni minni uppá því að neita að hlýða!

Þessa síðustu viku er ég senst þar af leiðandi búin að vera í stöðugu símasambandi við tölvunörda Nýherja og Jonas Rasmussen, góðvin minn á IBM-verkstæðinu í Kaupmannahöfn.
Sá ágæti maður tók við tölvunni minni til viðgerðar á föstudaginn og rukkaði mig litlar 1200.-DKR fyrir stýrikerfi á dönsku og þær upplýsingar að mótorinn í harða disknum mínum sé ónýtur og öll gögnin mín að eilífu glötuð! Takk fyrir það, Jonas. Þú ert öðlingur!!

En ekki er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og ljósi punkturinn í þessu öllu saman var sá að ég lagði í skreppitúr með Erlu til Kaupmannahafnar og náði að sjá englana mína í mýflugumynd þó ég hafi líklegast ekki verið skemmtilegasti gestur í heimi, algerlega úrvinda eftir 39 tíma vöku og sorgmædd yfir tölvumálunum öllum.
Sneri súrheitunum reyndar við í lestinni á laugardaginn og tókst að lækka nokkuð vel yfirborðið á áfengisbirgðum Sjálands með Helga sem sýndi okkur stöllunum skemmtanalíf Holbæklinga um kvöldið. Í þeim ágæta bæ tókst okkur að sjálfsögðu að dansa frá okkur allt vit og rænu með óvenju miklum glæsibrag áður en við lögðumst til svefns í villunni við Veg hins villta garðs.

Núna er ég svo komin aftur heim í holuna mína með tóman harðan disk en þó blessunarlega endurtengd við umheiminn. Annað kvöld mun svo nýji besti vinur minn hjálpa mér við að hlaða inn á tölvudrusluna Windows XP á mannamáli og öðrum nauðsynlegum tólum til að lifa vistina í Skals af þar til að Híbýli syndanna finnst í Viborg. Vonandi verð ég því búin að taka gleði mína á ný fyrir helgi.

Lifið heil, skrimslan

Engin ummæli: