19. ágúst 2003

Juminn!!

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á ég eftir að lifa hamingjusöm til æviloka! Stelpurnar neyddu ofaní mig kaffibolla um daginn í einhverju ægilegu spádómsæði sem helltist yfir þær og spáðu svo eins og óðir kuklarar fyrir mér í dreggjarnar eftir að ég var búin að blása og hringsnúa bollanum eftir öllum kúnstarinnar reglum. Og viti menn! Ekkert nema gleði og hamingja í bollanum! Vei!
Er að sjálfsögðu að hugsa um að trúa þessu öllu saman og lifa í þeirri vissu héðan af að ég eigi eftir að veltast um í einskærri hamingju og gleði til enda minna daga! Ákvað allavega að vera ekkert að storka örlögunum og skolaði þeim samviskusamlega niður með meira kaffi úr bollanum. Ughh! Það sem maður gerir ekki fyrir lukkulegheitin...

18. ágúst 2003

Orsök og afleiðingar

Laugardagskvöld...í augljósu ástandi...

Heyrðu, grillveisla íslendingafélagsins í Skals lukkaðist hreint svona stórvel og nú sitjum við Anna og Erla uppábúnar og skellum í okkur síðustu sopunum að sið íslendinga áður en bíllinn kemur og ferjar okkur diskódísirnar inn í Viborg. Þar mun vitleysunni ótrautt haldið áfram. Ómögulegt að eyða glæsilegheitunum á Skalsbúa, það er nokkuð ljóst!

Amadeus, Poison og Dolly er búið að hljóma í eyrunum í kvöld ásamt Hoffmannshnefa í trúbadorútgáfu Óskars og síðast en ekki síst Billy don´t be a hero. Þokkalega skitsó stemmning það! Úff!
Öllu svo rækilega skolað niður með rausnarlega skenktum Mojito-kokteilum að hætti Erlu sem ber þar af leiðandi alla ábyrgð á ástandi okkar Önnu og þeim afleiðingum sem það gæti haft í för með sér!
Stefnan er tekin á Crazy Daisy, sjitt hvað þetta er aumkunarvert....ég meina hvaða staður heitir Crazy Daisy??? Vá!


Þarna kom senst bíllinn og rauða málningin var rifin fram með það sama....
Fyrir barðinu á okkur varð víst ekki einungis Crasy Daisy, heldur líka bæði Dickens og Lola´s og ótæpilegt magn áfengis innbyrt á öldurhúsum þessum. Hvernig öðruvísi lifir maður svona af, ég bara spyr....

Minnist þess þó ekki að hafa straujað kortið mitt nema bara í leigaranum....Humm......

Núna er ég svo algerlega gegnsæ úr þynnku. Ennþá! Ojj! Er varla búin að geta komið niður bita af mat, sturturnar virðast hafa haft lítil sem engin áhrif á ferskleikann, eða réttara sagt skort á honum og til að toppa alltsaman þá er tölvan mín með vírus! Hrmpf...

12. ágúst 2003

Jarðarfaralag vikunnar

"If you don´t know me by now"
--Simply Red

Kaupkvennahöfn

Þá er ég aftur komin í samband eftir internetleysi síðustu daga.

Skellti mér með hinum hannyrðatróðunum í agalegan dömutúr til höfuðborgarinnar á fimmtudaginn og er búin að fara hamförum í kóngsins Köben alla helgina. Arkaði samviskusamlega milli safna, tískusýninga og bróderíbúða eins og duglegri skólastúlku í túristaleik sæmir, en eftir ágætis skammt af námstengdu rápi og menningarlegum skoðunarferðum, tók óumflýjanlega sjopping-æðið við (þerapía af hæsta klassa....á eftir rúnti að sjálfsögðu).
Reyndar var veðrið ekki alveg eins og best verður á kosið, 30 stiga hiti og molla (lesist eins og dolla) og frekar lítið heppilegt til búðarráps. En mín lét það sko ekki á sig fá og sjoppaði ótrauð áfram! Sönn hetja ég!

Eftir að hafa þrammað algerlega óstöðvandi um helstu verslunargötur borgarinnar og leitað skjóls í loftkældum verslunum, eytt svívirðilega mörgum peningum og bætt fleiri bleikum í safnið, lagðist ég örmagna á ströndina á sunnudeginum í örvæntingarfullri von um að freknunum fjölgaði það mikið að þær rynnu saman og ég gæti státað af fögru gullinbrúnu litarafti.
En neibbs. Ekki varð það úr frekar en fyrri daginn en ég er þó allavega hætt að lýsa í myrkri. Sem er alltaf jákvætt. Í þau fáu skipti sem það gerist.

Alveg er verið að svíkja mig um öll þessi ítölsku gen sem ég hélt ég ætti rétt á!! *bölv og sótbölv*

7. ágúst 2003

Highway to hell.... nei, ég meina Skals...

Jæja, ég kom úr vélinni og ekki tók þá betra við....beið í næstum 2 tíma eftir helvítis töskunni minni (sem er kannski ekki að undra, komin til lands þar sem endalaust afslappelsi ræður ríkjum og yfirvinna er hugtak sem ekki þekkist hjá öðrum fyrirtækjum en þeim sem hafa íslendinga í vinnu hjá sér) og þarmeð var allt andlegt stabílítet flogið út um gluggann.

Sem afleiðingu af því held ég að ég hafi talað aumingja Valla í bólakaf yfir matnum og bjórnum á strikinu. :( Hellti yfir hann pistlinum um mótlæti heimsins og ömurlegheit Jótlands og ýmislegt fleira misgáfulegt sem ég hef skynsamlega blokkerað úr minni mínu. Ég held hann hafi endanlega sannfærst um ættgenga geðsýki familíunnar!

Note to self: Tala til að gleyma.......Virkar ekki! Dem!!!

Bjargvætturinn tók svo á móti mér rétt fyrir miðnætti, kjúsin mín vöktu mig á mánudeginum og mín hélt áfram helförinni með trossu rétt fyrir hádegið. Og svo í aðra trossu. Og svo í strætó. #%$&#%$&#Q% grrrrrrrr....... Komin til Skals.

Ég get svo svarið það, það dó eitthvað inní mér þegar ég gekk hérna inn úr dyrunum......


4. ágúst 2003

Helför.is

Jæja, þá er ég komin aftur til smábæjar dauðans og það bæði gegn vilja mínum og 20þúsund kalli fátækari! Hefði átt að stríða sumum aðeins meira á því að hafa misst af fluginu heim frá útlandinu um daginn.....

Mín var senst í ammæli hjá Sigga Palla á laugardagskvöldið og verandi gjörsamlega að farast úr súrheitum og öðrum fylgikvillum þess að vera að yfirgefa landið ástkæra.....lá það í augum uppi að það eina skynsamlega í stöðunni væri að drekkja sorgum sínum í Viking (Tuborg var náttlega alveg off!), því með réttu ráði færi ég ekki út á Keflavík þá um nóttina.
Mistökin sem ég gerði voru hinsvegar ekki þau að leggja höfuðið í bleyti, heldur að leggja það á koddann síðar um kvöldið og telja mér trú um að það væri stórgóð hugmynd að fara ekki rorrandi á völlinn. Men!...was I wrong!! Rankaði svo við mér rétt um það leiti sem vélin fór í loftið.......gildir forfallatryggingin ekki örugglega ef maður er ofurölvi???

Er núna að vinna að því hörðum höndum að sannfæra mig um að þetta hafi verið örlögin sem tóku í taumana og vélin hefði örugglega farist með öllum innanborðs ef ég hefði verið með....og með því að missa af henni hafi ég ekki einungis bjargað ótal mannslífum heldur einnig komið í veg fyrir stórtap hjá Iceland Express! Fær maður ekki smá kredit útá það? Frítt flug tildæmis? Heiðursskjal jafnvel?? Skrifa þeim á morgun og læt þá vita af þessu.

Einhvernvegin dröslaði ég mér samt út á Loftleiði og tók rútuna upp á Keflavík. Var rétt búin að hætta við og hefði eflaust rokið útúr rútunni ef Valli hefði ekki sest við hliðina á mér í gangsætið og þannig komið í veg fyrir að ég gæti stokkið fram, stoppað bílstjórann og hætt við alltsaman á nóinu. Bölvaði honum í hljóði og horfði löngunaraugum á rauða hamarinn við rúðuna alla leiðina til Keflavíkur.

Með sígó og súkkulaði í poka og sannfærð um það að sálufélagi minn, Gunnar, hringsnerist í gröfinni, gekk ég svo í vélina.

.........framhald síðar.........

1. ágúst 2003

Eins og talað útúr mínu hjarta.....

"Líkamsrækt er ekkert nema uppa-útgáfan af lotugræðgi!!"
-manekkihver

ehh....

Það læðist að mér ískyggilegur grunur um að ég eigi eftir að sjá eftir að hafa póstað þessa síðustu færslu..... :/

Ég er með kenningu...!

Ég fór sko á Hverfisbarinn á föstudagskvöldið síðasta með Helga og Stebba .....já, ég veit….það er eitthvað mjööög undarlegt við þessa fullyrðingu en þetta er engu að síður raunin!!.... Hef sko aldrei komið þar inn fyrr og leyfi mér að efast stórlega um að ég muni nokkurn tíman leggja leið mína þangað aftur ....leið doldið eins og í einhverri undarlegri vísindaferð eða boðflennu á árshátíð allra sólbaðsstofa í bænum! Ég get svo svarið það, maður varð bara hræddur!!

Eníhú….á nefndum bar mótaðist þessi kenning mín sem felur í sér þá sannfæringu að sú tíska sem nú virðist vera við völd hjá kvenþjóðinni, að ganga í svona lághæla skóm eða skóm með ekki nokkrum hæl vottsóever, stuðli hreinlega ótvírætt að aukinni ölvun þeirra stúlkna sem fylgja henni!
Þetta gefur náttúrulega augaleið þegar maður hugsar málið aðeins nánar…..það er ekki nema rökrétt að komast að þessari niðurstöðu því fólk hlýtur að sjá, að “dama” áttar sig mun fyrr á eigin ölvun þegar hún er á háum hælum þar sem jafnvægisleysið fer jú talsvert fyrr að segja til sín á pinnahælum en á lágbotna skóm! Augljóst!!…..ekki satt??

Að þessum niðurstöðum fengnum vil ég því að sjálfsögðu hvetja allt kvenkyns til að sjá sóma sinn í því að klæðast eingöngu háum hælum þegar þær leggja leið sína út á lífið, þ.e.a.s. ef ætlunin er að innbyrða áfengi af einhverju tagi og planið er að komast skammlaust frá því.….. ;) ehemm....ekki svo að skilja að þetta komi eitthvað í veg fyrir að maður skandaliseri, en þá er þó alltaf hægt að leika Pollýönnuleikinn og hugga sig við það hversu mikið verra ástandið hefði verið ef skótauið hefði verið af hinni hælalausu tegund! ;)

Eftir að hafa póstað þessa færslu á veraldarvefnum hef ég því tekið þá ákvörðun að geta samviskulaust álitið hverja þá stúlku sem er ofurölvi á lághæla spariskóm annað af tvennu :

a) með greind undir stofuhita (hún hefur haft takmarkalausa trú á sjálfstjórn sinni á drykkjusviðinu og ekki staðið undir því)
b) glyðru (henni er alveg sama)

....og þar af leiðandi vorkennt þeim öllum agalega án nokkurs samviskubits yfir að vera með fordóma!!