25. nóvember 2004

Hvur grefillinn!

Er þetta í alvörunni að skella á?
Á maður að fara útí það núna fyrir sunnudaginn að púsla saman einhverjum fríkin aðventukransi?
Er það málið?

Nú verður að viðurkennast að ég er ekki ein af þeim sem finnst það sérstaklega jólalegt að ryksuga greninálar úr stofuteppinu í margar vikur út af einhverju tilgerðarlegu föndri með trjágreinar og satt að segja er það heldur ekki sérstaklega mikið ég að eyða stórum fjármunum (sem betur væri varið í tóbak, áfengi, nammi og fleiri félagslega jákvæða hluti) í leir og slaufur og blómavír og sitja svo sveitt við að berja þetta saman í "skreytingu" af því að allir aðrir gera svoleiðis.
Hvað er þá til ráða?

Ekki misskilja mig, ég hef svosem ekkert á móti kertaljósi...það er alveg huggulegt og rómó. Þannig að það er spurning hvort maður reddi þessu ekki bara á einfaldan hátt og láti það nægja að fjárfesta í sprittkertum og glimmeri, hvolfi svo bara úr glimmerdollunni á matardisk, stilli kertunum upp á fagurlegan hátt þar ofaná og láti svo bara Dollý og Kenny sjá um restina af stemmningunni!

Engin ummæli: