20. apríl 2004

Öpp-deit

Hér kom ákaflega hugrökk sál í heimsókn í gær og frelsaði mig undan morðóðu augnaráði óargadýrsins sem ég hélt föngnu í stofunni.

Var villidýr þetta aflífað á snöggan og jafnframt afar miskunnsaman hátt og jarðlegum leifum þess hent út um gluggann til að ættingjar og aðrir nákomnir aðstandendur gætu jarðað og syrgt og hætt að lifa í óvissu um afdrif þess.

Tel ég þetta mikið góðverk, þó að eftir á að hyggja hefði líklega verið ráðlegra að losa sig við líkið örlítið lengra frá heimili mínu svo ekki væri jafn auðvelt að bendla mig við verknaðinn. Get þó huggað mig við það að ég er hinu versta viðbúin og mun verja heimili mitt innrás áttfætlanna og hvers kyns hefndaraðgerðum sem þær gætu fundið uppá, þó ekki með kjafti og klóm, heldur hinu mjög svo viðamikla vopnabúri mínu, innihaldandi meðal annars flugnaspaða, sellófan, límband og Trinol Bio 810 Insektmiddel af dýrustu sort. Hef ég einnig komið mér upp lager af glösum til að halda skepnunum í skefjum á milli heimsókna böðulsins.

Held þeim sé hollast að halda sig fjarri!!

Engin ummæli: