2. september 2004

Takið af ykkur skóna...


Eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir er smá lægð búin að vera yfir landinu síðustu daga og þykir mér miður hversu slæm áhrif þetta hefur haft á blogg-frammistöðu mína.

Nú er þó heldur betur búið að snúa við blaðinu hér á heimavígstöðvunum og sem einn af mörgum fylgifiskum hins nýja lífs sem hafið er, bretti húsfreyjan í höllinni upp ermar sínar í dag, setti upp svuntuna og gerði sér lítið fyrir og tók jólahreingerninguna á alla 66 fermetrana sína!
Annað eins hefur líklega aldrei sést til hennar!

Á tímabili ætlaði tuskubrjálæðið algerlega að keyra um þverbak og get ég hér með vottað að gamla húsráðið með að heklunál nr 2 1/2 væri best í hornin er hreint ekki fjarri lagi. Ég er að segja ykkur að ekki nóg með að ég hafi þrifið alla lista og hurðarkarma á heimili mínu og þurrkað af hverjum einasta slökkvara í húsinu heldur skrúbbaði ég sem óð væri, á og undir stöðum sem mannlegar verur vita ekki einu sinni af og aðeins hinar þrautþjálfuðustu húsmæðraskólagengnu konur koma auga á.
Við erum að tala um að Kolla mín á Hallormsstað gæti verið svo stollt af sinni akkúrat núna að það er ekki lítið. Sýndi og sannaði með tilþrifum í dag hversu vel búin ég var að einkunninni 9 í því ágæta fagi "Þvottur og ræsting".

Ekki voru þrifin þó það eina sem ég tók mér fyrir hendur, ónei! Fyrst ég nú var komin í gírinn á annað borð var ekki um annað að ræða en að rífa áklæðið af ástkærri IKEA mublunni og henda í þvottavélina, setja nýtt á rúmið (skipti þá engum togum að síðast hafi það verið gert fyrir aðeins 2 dögum síðan) og sortera í bókhaldsmöppuna. Þetta hreinlega jaðrar við geðveiki, það sér það hvert mannsbarn.

Sem óð væri viðraði ég því að sjálfsögðu einnig sængina og koddana (að ógleymdu gestasettinu, ójá!) og pússaði gluggana jafnt að innan sem utan. Allt þetta með dyggri aðstoð Dolly nokkurrar Parton sem hvatti mig áfram með söng og undirspili sem ómaði um allt hverfið útfrá græjunum mínum.
Spurning hvort ég skelli ekki bara í lummur svona fyrst ég á annað borð er að þessu?


-Mikið gríðarlega verður sá maður lánsamur sem fær mig sem eiginkonu!

Engin ummæli: