29. nóvember 2004

Verði aðventukrans! Og það varð aðventukrans!

Jæja, hvað segiði gott fólk?
Er ekki stemmning fyrir að kíkja í heimsókn og berja augum hinn nýskapaða chili/glimmer-aðventukrans sem vígður var við hátíðlega athöfn í gær?
Ekkert minna en stórglæsilegur er hann! Ójá!

Ef kransinn einn og sér er ekki nógu mikil attraksjón, þá mun að auki haldið stærðarinnar gilli þann 11. desember næstkomandi í tilefni af 21 árs *hóst* afmæli húsfreyjunnar. Verða mikil hátíðahöld þennan dag allan og vel framundir morgun næsta dag. Ættu þar flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þar sem á boðstólum verða allar helstu fæðutegundir partýdýra, en eins og allir vita nærast þau helst á fljótandi fæði með mismunandi prósentuhlutfalli hins þekkta Alc-vítamíns ásamt fjölbreyttu úrvali mislitra svaladrykkja bæði með og án koldýru.

Hlakka til að sjá ykkur!

25. nóvember 2004

Hvur grefillinn!

Er þetta í alvörunni að skella á?
Á maður að fara útí það núna fyrir sunnudaginn að púsla saman einhverjum fríkin aðventukransi?
Er það málið?

Nú verður að viðurkennast að ég er ekki ein af þeim sem finnst það sérstaklega jólalegt að ryksuga greninálar úr stofuteppinu í margar vikur út af einhverju tilgerðarlegu föndri með trjágreinar og satt að segja er það heldur ekki sérstaklega mikið ég að eyða stórum fjármunum (sem betur væri varið í tóbak, áfengi, nammi og fleiri félagslega jákvæða hluti) í leir og slaufur og blómavír og sitja svo sveitt við að berja þetta saman í "skreytingu" af því að allir aðrir gera svoleiðis.
Hvað er þá til ráða?

Ekki misskilja mig, ég hef svosem ekkert á móti kertaljósi...það er alveg huggulegt og rómó. Þannig að það er spurning hvort maður reddi þessu ekki bara á einfaldan hátt og láti það nægja að fjárfesta í sprittkertum og glimmeri, hvolfi svo bara úr glimmerdollunni á matardisk, stilli kertunum upp á fagurlegan hátt þar ofaná og láti svo bara Dollý og Kenny sjá um restina af stemmningunni!

24. nóvember 2004

Þriðjudagskvöld í höllinni

Það er ekkert nema lélegt í sjónvarpinu, mér er illt í eggjastokkunum og ég þarf að taka til.
Er ekki í stuði til þess.

Í staðinn sit ég hér og grenja yfir þessu lásí sjónvarpsefni.
Hvað er það??

Djöfull er maður paþettikk svona einu sinni í mánuði.



19. nóvember 2004

When shit happens

Hafiði tekið eftir því að sumir atburðir verða í raun ekkert raunverulegir fyrir manni fyrr en maður er búinn að segja einhverjum frá þeim? Maður situr einn með sjálfum sér og það er eitthvað gríðarlega merkilegt búið að gerast en enginn til að deila því með....
Talandi um að eitthvað sé nerve wrecking!

Lenti í því að það gerðist smá......og ég var við það að fara yfirum yfir því að það var enginn hjá mér til að sjá það og enginn á msn sem ég gat sagt frá því. Endaði með því að ég sagði halló við alla á msn sem myndu skilja mikilvægi þessa atburðar en enginn svaraði fyrr en ég var að því komin að byrja að reita hár mitt af taugatitringi. Til allrar hamingju var mér að endingu komið til hjálpar og messengerinn fór að blikka í túlbarinu.

Fjúkket! Ég veit ekki hvar þetta annars hefði endað, svei mér þá!
Líklega hefði ég setið hér í mublunni og hægt en ákveðið tapað glórunni vegna þess að svo virðist sem mér sé það lífsins ómögulegt að meðhöndla hlutina í raunheimum fyrr en ákveðin staðfesting er komin á atburðinum. Eina leiðin til að öðlast hana, í þessu tilfelli allavega, var einmitt sú að tilkynna þetta.
Því þá vita það fleiri.
Þá hlýtur það að hafa gerst.
Ekki rétt?

Það versta er þó að ég er sko ekkert að spauga með þetta. Meina þetta í fúlustu alvöru sko. Sko!
Er ég nokkuð ein í heiminum sem er svona létt-geðveik? Anyone?


En nú er þetta frá. Núna er ég viss um að þetta gerðist. Og þá er ég glöð. Jeij! :D

Tilveran

HoneySugarLemonPie: vá hvað lífið er eitthvað steikt
HoneySugarLemonPie: er það þetta sem maður á eftir að líta til baka á og finnast bestu ár ævi sinnar
New York New York!: ég hreinlega veit það ekki
New York New York!: ég held samt að þetta verði mín bestu ár
HoneySugarLemonPie: pældu samt í því hvað það er sorglegt
HoneySugarLemonPie: að eiga öll þessi ár eftir sem verða ekkert eins góð og þessi
HoneySugarLemonPie: maður verður alltaf lítandi til baka
HoneySugarLemonPie: mér finnst það ekkert jákvæð tilhugsun sko
New York New York!: held það verði samt ekkert þannig
New York New York!: þá verða bara aðrir hlutir sem gera mann lukkulegan
New York New York!: held það sé líka mjög sorglegt að vera í þessu ástandi fertug
HoneySugarLemonPie: reyndar....
HoneySugarLemonPie: það er alveg pæling


Svona er maður nú gáfulegur klukkan tvö um nótt...



16. nóvember 2004

Fortíðardraugur og fjaðrasaumur

Þá er maður kominn aftur til hversdagsins hérna í Viborginni eftir að hafa skroppið heim í örfáa daga.
Þó ástæður ferðarinnar hafi verið jarðarför var þetta notaleg ferð og ég náði að hitta flesta þá sem ég hafði ætlað mér og aukalega nokkra til viðbótar.
Ákveðinn fortíðardraugur skaut til dæmis upp kollinum mér algerlega að óvörum og sá fundur kom ánægjulega á óvart.
Þótti virkilega vænt um það.

Einn þeirra daga sem ég heiðraði landann með nærveru minni tókst mér líka að fjárfesta í óstjórnlega glæsilegu tæki og þessir síðustu dagar eftir heimkomuna hafa farið í að kósa mig með apparatinu og kynnast því betur.

Má ég kynna nýinnflutta sambýliskonu mína: Pfaff 2025
Hugmyndir að gælunafni á dásemdina eru vel þegnar í kommentakerfið, því ég hef enn ekki komið auga á hentugtan möguleika þess efnis og þar sem það nafn sem henni var gefið getur hvorki talist sérlega þjált í munni né hentugt til styttingar þá er ég í nokkurri klemmu hérna. Hmm....

Hef ég fulla trú á því að fröken þessi muni bæta heimilislífið allverulega, koma með ferska lífssýn á heimilið og stuðla að fjölgun notalegra kvöldstunda í höllinni.

Jæja, farin að kynna mér overlocksauma.
Leiter

9. nóvember 2004

Steinn, my man!

Já, ég er heima þessa dagana. Stutt stopp reyndar og ástæður ferðarinnar frekar sorglegar en meira um það seinna.

Mál dagsins er hinsvegar að ég datt niðrí ljóðasafn Steins Steinarr þegar ég heimsótti ákveðið menningarheimili hér í bæ í gær og stenst bara ekki mátið að pósta hér einni af þeim snilldum sem ég fann eftir kauða.
Fannst þetta eitthvað svo viðeigandi:


Eldur

Enginn veit um eldinn
sem einu sinni brann.
Í landi minna lífsins drauma
logaði hann.

Ég sótti þangað þróttinn
gegn þrautum og neyð.
Þar vann ég hæstu hugsjón minni
hollustu-eið.

En eitt sinn þegar eldurinn
allra heitast brann,
þá skeði einmitt ógæfan,
sem oftast hendir mann.

Því eldurinn er eldur
og enginn þekkir hann.
-Og sjálfur upp til ösku
ég í honum brann.

-Og enn þá loga eldar
og enn þá brenna menn.
Finnurðu ekki sviðalykt
af sjálfum þér enn?

Steinn Steinarr


-talandi um að hitta naglann á höfuðið.....