Enn er ég á lífi, ótrúlegt en satt...
Internet-ástandið er þó enn það sama og engin tenging komin heim til okkar en ætli maður verði ekki samt að láta eitthvað vita af sér og henda inn eins og örfáum af helstu fréttum liðinna daga og vikna.
Það hefur senst ýmislegt á daga mína drifið undanfarið:
*Fyrir það fyrsta fundum við okkur ægilega sæta íbúð um daginn og búum núna með ströndina í bakgarðinum og útsýni lengst út á rúmsjó. Það er plús.
*Ég er byrjuð að vinna fyrir íslenska ferðaskrifstofu og mun vera í því að gæda íslenska túrista um eyjuna í sumar. Það er líka plús.
*Það kviknaði í þvottavélinni okkar fyrir tveim vikum og eldglæringarnar stóðu undan maskínunni sem spúði reyk um alla íbúð og hefði efalaust brennt ofan af okkur (og öðrum) kofann ef ekki hefði verið fyrir snarræði okkar skötuhjúa. Það var mínus.
*Önnur þvottavél er hinsvegar komin í kotið og sú gamla farin á haugana. Það er plús.
*Mamma var í heimsókn um daginn og það var mjög notalegt. Við rúntuðum um eyjuna, lágum á ströndinni, elduðum paellur og munaði engu að við hefðum komist í gegnum vikuna án þess að skammast. Það var plús.
*Ég er líka búin að fúaverja svolítið, láta spá fyrir mér með tarot-spilum og reyna árangurslaust að verða brún.
Þetta voru helstu fréttir undanfarinna vikna.
Ég hef það semsagt bara frekar gott og kósí. Hér er voða notalegt að vera, sólin er heit og sjórinn er blautur og manni líður hreinlega eins og maður sé á Mallorca.
Vona að lesendur hafi það huggulegt á hinni eyjunni líka.
Nýja adressan okkar er:
C./ Punta Marroig
Edf. SUN (Esc.1, piso 6D)
07181 Palma Nova, Mallorca
I. Balears
Espana
...og þar sem ég hef víst aulast til að ruglast aðeins á símanúerinu mínu þegar ég hef sent það til fólks þá læt ég það fljóta með hér: 00-34-659 244 757
Sólarkveðja,
Engin ummæli:
Skrifa ummæli